VERÐSKRÁ YFIR ÁKVÆÐISVINNU HÚSASMIÐA - SAMIN AÐ TILHLUTAN VERÐSKRÁR HÚSASMIÐA

ATHUGIÐ!!!

 • að mælingarstofur reknar á ábyrgð aðildarfélaga hafa einar rétt til að gefa út mælingar samkvæmt þessari verðskrá.
 • að stöðugt er verið að endurbæta og breyta verðlagningum, verðleggja nýja vinnuliði, og geta því ýmis verð, er standa í verðskránni, verið úr gildi fallin, einkum þegar langt er um liðið frá útgáfu verðskrárinnar.
 • að ýmsar verðlagningar á afbrigðilegum verkum, er aðeins að finna í samþykktum verðskrárnefndar, en eru ekki prentaðar í verðskrá.
 • að mælingarstofur og verðskrárfulltrúar aðildarfélaga eru einu aðilar utan verðskrárnefndar, sem alltaf hafa rétta verðskrá og allar samþykktir verðskrárnefndar.

Úr reglugerð fyrir Verðskrá húsasmiða:

"Aðild að verðskránni geta aðeins átt viðurkennd félög sveina og meistara, þó aldrei nema eitt frá hvorum aðila á hverju félagssvæði".

"Ekki hafa aðrir heimild til að gefa út mælingar eftir verðskrá þessari en mælingarstofur, sem starfræktar eru á ábyrgð viðkomandi sveina- og meistarafélags".

Upplýsingar um aðildarfélög gefur skrifstofa Verðskrár húsasmiða,Borgartúni 30, 10 Reykjavík sími 535 6000 eða á vefsíðu www.verdskra.is

VERÐSKRÁNA ER ÓHEIMILT AÐ FJÖLFALDA EÐA AFRITA, HVORT HELDUR ER Í HEILU LAGI EÐA AÐ HLUTA

REGLUGERÐFYRIR VERÐSKRÁ HÚSASMIÐA


 

I. Kafli

 1. Aðild að verðskránni geta aðeins átt viðurkennd félög sveina og meistara, þó aldrei nema eitt frá hvorum aðila á hverju félagssvæði.
 2. Ekki hafa aðrir heimild til að gefa út mælingar eftir verðskrá þessari en mælingar¬stofur, sem starfræktar eru á ábyrgð viðkomandi sveina- og meistarafélaga.
 3. Nú er ekki starfandi mælingarstofa (mælingarmaður) hjá aðildarfélagi, eða á svæði þess í tvö ár í röð, og fellur þá aðild að verðskránni niður. Taki mælingarstofa (mælingarmaður) til starfa síðar, öðlast félagið sjálfkrafa aðild á ný, enda sé Verðskránni tilkynnt það skriflega og tilnefndir verðskrárfulltrúar.

 

II. Kafli

Verðskrárnefnd hefur aðsetur sitt í Reykjavík. Hún er skipuð 6 mönnum, 3 frá meisturum og 3 frá sveinum.

Aðalfundir Byggiðnar og Meistarafélags húsasmiða í Reykjavík skulu kjósa menn í nefndina til eins árs í senn.


 

III. Kafli 

Hlutverk nefndarinnar er:

 1. Að verðleggja nýja vinnuliði, er upp kunna að koma í faginu.
 2. Að endurbæta gildandi verðskrá.
 3. Að vinna að því, að verðskráin verði notuð sem víðast um landið og að sem flest verk verði unnin samkvæmt verðskrá.

 

IV. Kafli

 1. Á hverjum stað (félagssvæði), þar sem verðskráin er notuð, skal kjósa tvo verðskrárfulltrúa. Annar skal valinn af viðkomandi sveinafélagi og hinn af viðkomandi meistarafélagi. Stjórn viðkomandi félags er heimilt að tilnefna varamann fyrir verðskrárfulltrúa.
 2. Verðskrárfulltrúar skulu gera tillögur um nýjar eða breyttar verðlagningar á sínu svæði og vera mælingarfulltrúum til aðstoðar við túlkun verðskrár.
 3. Hafi verðskrárfulltrúar gert tillögur að nýjum eða breyttum verðlagningum, skulu þeir senda þær tillögur til verðskrár¬nefndar, er úrskurðar þær endanlega.
 4. Ef verðskrárfulltrúar eru sammála um nýja verðlagningu, á vinnu sem ekki er verðlögð í verðskrá, tekur hún þegar gildi og reiknast uppmælingar samkvæmt henni, þar til endanlegur úrskurður verðskrárnefndar liggur fyrir.
 5. Ef, að dómi verðskrárfulltrúa, verk er framkvæmt með afbrigðilegum hætti, sem litlar líkur eru á, að verði endurtekið með sama hætti, er heimilt að verðleggja það sérstaklega, en eigi að síður skulu þeir senda verðskrárnefnd verðlagninguna.
 6. Telji verðskrárfulltrúar þörf á sérstakri vinnu, við að verðleggja atriði sem verðskrárnefnd hefur ekki verðlagt, skulu þeir leita samþykkis skrifstofu Verðskrárinnar áður en verk er hafið. Verðskráin greiðir kostnað vegna vinnu við slíkar verðlagningar.
 7. Verðskrárfulltrúar skulu halda gjörðabók og senda verðskrárnefnd jafnharðan afrit af fundargjörðum. Kostnað við fundi þessa greiðir Verðskráin með þóknun, sem verðskrárfulltrúafundur ákveður.
 8. Verðskrárnefnd skal senda öllum verðskrárfulltrúum og öllum mælingarstofum afrit af fundargerðum sínum innan sjö daga frá fundi. Jafnframt skal hún vinna að því, að allar mælingarstofur og allir verðskrárfulltrúar hafi jafnan leiðrétt eintak af verðskránni.

 

V. Kafli

 1. Verðskrárfulltrúar skulu eiga rétt á að sitja fundi verðskrárnefndar, þegar fjallað er um þeirra tillögur. Á þeim fundum njóta þeir fulls málfrelsis. Óski verðskrárfulltrúar eftir að mæta á öðrum fundum verðskrárnefndar, er þeim heimil seta með sömu réttindum.
 2. Heimilt er verðskrárfulltrúum að óska eftir, að verðskrárnefndarmenn eða starfsmaður nefndarinnar komi til að skoða verk er verðleggja þarf, enda leyfi fjárhagur nefndarinnar það. Jafnan skal þó leitast við að verða við þeim óskum, ef verðskrárnefnd hefur ekki fallist á tillögur verðskrárfulltrúa og ef um nýjar verðlagningar er að ræða.
 3. Kostnaði við verðskrána skal skipta á félögin í samræmi við notkun þeirra á henni. Verðskrárgjald er 0.5% af mælingarupphæð. Þar sem starfandi eru mælinga- og endurskoðunarstofur skal hvor þeirra bera ábyrgð á skilum á 0.25% af mælingarupphæðum. Sé endurskoðun ekki framkvæmd ber mælingarstofu að innheimta allt verðskrárgjaldið.
 4. Á tveggja ára fresti skulu verðskrárfulltrúar mæta á fundi með verðskrárnefnd. Á þeim fundum skal leggja fram reikninga verðskrárinnar, gefa starfsskýrslu fyrir liðin ár og leggja fram starfsáætlun fyrir þau næstu. Á þessum fundum hafa allir verðskrárfulltrúar og verðskrárnefndarmenn sömu réttindi. Fundirnir skulu haldnir í febrúar- eða marsmánuði.