Starfsmaður Verðskrár húsasmiða heimsótti smiði sem vinna í mælingu í nýja Tónlistarhúsinu. Hitti þar fyrir Oddbjörn mælingamann og Braga endurskoðanda sem voru að mæla upp. Magnús Bragi Gunnlaugsson smiður hjá ÍAV var þar fyrir og leiddi starfsmann í sannleikann um hvernig ÍAV og smiðirnir í sameiningu héldu utan um mælingarnar.

 

Magnús

Aðspurður svaraði hann því til að um 40 smiðir væru að vinna í mælingu á staðnum. Smiðirnir skiptu sér í hópa eftir atvikum, um 3-5 menn saman. Hóparnir halda utan um hvert verkefni og sjá um bókhald fyrir mælingarnar. Hver mæling fær sitt númer og er sjálfstæð, en upphæð mælinganna fer í einn pott, sem síðan er skipt milli smiðanna eftir tímafjölda. Tímakaupið er þessvegna það sama hjá öllum smiðunum 40.

Með þessu fyrirkomulagi er ágreiningur úr sögunni um hvaða hópur á að fá hvaða verkefni, rifrlildi um krana og verkfæra heyri sögunni til að sögn Magnúsar. Magnús telur þetta betra fyrirkomulag en áður var. Mælingakaupið reynist vel ásættanlegt og mórallinn ágætur. 

Vissulega er nokkur vinna við að safna saman mælingum og undirbúa komu mælingamanna. Það er gert með aðstoð tölvu sem er á staðnum og flokkstjórar hópanna sjá um. Þar er mælingaplan útbúið, hvaða hópar og hver tekur upp mælingar fyrir hvern hóp. Oddbjörn mælingamaður fær þetta mælingarplan þegar hann kemur á staðinn. Kallað er á þann smið sem tekur upp mælinguna í þeirri röð sem mælingarplanið er. Þetta kallar á nokkurn aga hjá hópunum og þeir vel búnir undir komu mælingamanna. Tímaskrift hópanna er gert í tímaskráningarkerfi sem heitir Tímon og heldur það utan um tímaskriftirnar.

Starfsmaður Verðskrár hitti einnig Ísleif Sveinsson sem er byggingastjóri á staðnum. Ísleifur fylgdi starfsmanni um bygginguna og lýsti henni. Starfsmaður hafði áhuga á að vita um steyptu veggina, sem eru svargrænir og gljáandi. Að sögn Ísleifs er litarefni blandað í steypuna sem er síðan meðhöndluð á sérstakan hátt. Þar sem steypuefjan má ekki leka út úr steypumótunum verður að setja glerjunarborða á öll samskeyti á þeim til að vatnsþétta mótin sem er lykillinn að áferð steypunnar. Einnig þarf að „víbra" steypuna mjög vel til að fjarlægja sem mest af loftbólum úr henni. Að sögn Ísleifs er gríðarlega mikil vinna við mótin.

Mælingamenn að störfum

Mótavinnan er unnin í mælingu sem og önnur verk smiða á staðnum. Auðvelt er að gera sér grein fyrir hversu mikla natni þarf við gerð steypumótanna. 

Við skoðun hússins kemur í ljós hversu griðarleg áhersla er lögð á hljóðburð í húsinu og kemur það ekki á óvart. Nánast öll rými eru með tvöföldum veggjum sem eru aðskildir frá öðrum. Það má segja að byggt sé sjálfstætt hús inni í hverju rými. Gólf eru oftar en ekki tvöföld og slitin í sundur með gúmmí púðum.

Í aðalsal hússins er sem annarsstaðar lögð áhersla á hljómburð. Má nefna steypta fleka sem eru hliðarveggir salarins. Flekarnir eru á lömum og opnst inn í hliðarsali. Á þeim verður síðan rafmagnsbúnaður sem stjórnar opnun flekanna samkvæmt kröfu um hljómburð í hverju verkefni. Lamir þessarra fleka eru engin smásmíði. [Sjá myndir]

Burðarvirki hússins er blandað stáli og steypu. Ekki er hikað við að gera þakvirki úr stáli að kraftsperru sem bæði heldur uppi bæði þaki og gólfi.

Heilu salirnir fara undir loftræsti og raforkubúnað. Það er fróðlegt að horfa inní einhvern af þremur sölunum sem eru fullir af loftræstikerfum og örðrum búnaði. 

Það er gleðiefni að sjá hver geta íslenskra verktaka er orðin. Þetta mikla hús hlaðið tæknibúnaði og framúrstefnulegri hönnun virðist ekki vefjast fyrir aðalverktakanum. Öll sú undirbúningsvinna og samræming verkþátta er gríðarleg, krefst hæfra stjórnanda og hönnuða, og ekki síst hæfra iðnaðarmanna til að framkæma verkið.

Það má nefna að stefna aðalverktakans er að mælingavinna sé unnin að langmestu leyti. Bæði eykur hún afköst og skilar sér beint í agaðri og skilvirkari vinnubrögðum. Smiðir sem vinna í mælingu eru yfirleitt ánægðari í vinnu eins og viðtöl hér að framan bera vitni.

Ísleifur

Í samtali við Ísleif kom meðal annars fram: Smiðirnir eru með tvo flokkstjóra, einn fyrir innivinnu og annan í útivinnu. Í heildarverkinu eru fjölbreyttir verkþættir bæði í inni og útivinnu. „Við erum með venjuleg mót, kerfismót og mótin með áferðinni. Einnig eru við með í loftavinnu trapissuloft og venjuleg loft. Þetta er mjög fjölbreytt og við þurfum að geta róterað mönnum á milli verkþátta.

Vegna þess hvernig hóparnir vinna og allir fá að lokum jafnt út úr mælingunum gerir okkur kleift að „rótera" mönnum á milli án leiðinda. Það leiðir að mestu fáanlegu hagræðingu sem hægt er að fá í vinnutilhögun. Þegar mikið liggur við er hægt að hægja eða hraða verkþáttum eftir aðstæðum."

„ Mér finnst vinnumórallinn vera ágætur og mannskapurinn jákvæður í garð verkefnisins. Verkefnið er mjög krefjandi, en allir hafa að sama markmiði að keppa. Sanngjarnt kaup er greitt í gegnum mælinguna og virkar þetta launakerfi sem dempari á þenslu og kreppu."

Það er afskaplega gott fyrir fyrirtækin. Ekki eru greidd hærri laun á þenslutíma né lægri á krepputímum. Fyrirtækin og smiðirnir vita þar með nokkurn veginn hver launakostnaður verður við hvern verkþátt.

Viðtalið við þá Magnús og Ísleif sýna vel að hægt er að nota uppmælingartaxta við verkefni þó svo þau séu flókinn. Það myndast meiri samstaða hjá smiðunum og allir keppa að sama markmiði eins og Ísleifur komst að orði hér að framan.

Verðskrá húsasmiða þakkar þeim Magnúsi og Ísleifi fyrir samtölin og þær upplýsingar sem þeir gáfu.