Verðskráin fékk að fylgjast með upptöku þegar mælingamaður frá Trésmiðafélagi Reykjavíkur var á ferðinni og notaði tækifærið til að taka viðtal við einn eiganda Aleflis ehf. Arnar Guðnason og einn starfsmanna þeirra, Björn Vigfús Metúsalemsson

Verðskrá: Hvað er langt síðan Alefli byrjaði að láta mæla hjá sér? 

Arnar

Arnar: Það er nú um þrjú ár síðan við báðum Trésmiðafélagið að halda kynningarfund um mælinguna. Starfsmaður Verðskrár og starfsmaður T.R. héldu síðan kynniBjörn og Arnarngarfund þar sem þeir svöruðu spurningum og veittu starfsmönnum okkar og okkur ýmsar upplýsingar um uppmælinguna. 

Verðská: Hafa starfsmenn ykkar unnið í mælingu síðan? 

Arnar: Já og þeir vinna svo til alla vinnu í mælingu.

Verðskrá: Þið hafið einnig erlenda starfsmenn á launaskrá, vinna þeir í mælingu?

Arnar: Já þeir vinna með íslensku smiðunum í mælingu og fá hlutdeild í henni. Íslensku smiðirnir stjórna þessu nokkuð og leiða flokkana. Það er góð sátt um hvernig þessu er skipt. Okkur finnst gott að fá alla smiðina til að vinna sameiginlega að hverju verkefni, hvort sem um er að ræða erlenda eða innlenda smiði. 

Verðskrá: Björn hvernig líkar ykkur að vinna í mælingu?

Björn: Eftir að við byrjuðum að vinna í mælingu fyrir þremur árum hefur kaup okkar hækkað nánast um helming, og þetta hefur góð áhrif á móralinn. Við vinnum allir saman í mælingu og erum í einum potti með útkomu mælingarinnar á hverjum vinnustað, þannig að laun smiða eru þau sömu á hverjum vinnustað fyrir sig. Því skiptir ekki öllu máli við hvað hver vinnur. Það veljast bara smiðir í verkin eftir hæfileika hvers og eins. Eins er það með fyrirtækið, þeir verða að standa sig með efni og annað sem að verkinu snýr. Einnig er mikilvægt að mótapakkinn sé hæfilegur hverju verki. Um verktilhögun eru allir á tánum um að verkið sé unnið á sem hagkvæmastan hátt bæði smiðirnir og verkstjórar fyrirtækisins. Þá er ekkert undanskilið. Þannig að hagsmunirnir eru algerlega gagnkvæmir. Þó mér væri boðið sama tímakaup og í mælingu vildi ég frekar vinna í mælingu. Mælingarvinnan er bara miklu betri og skemmtilegri.

Verðskrá: Arnar hvernig finnst fyrirtækinu að láta smiði vinna í mælingu? Finnst ykkur að launakostnaður hafi hækkað?

Arnar: Við viljum einfaldlega að starfsmenn fái sanngjörn laun. Mælingin er nokkuð sanngjörn. Hún er afkastakvetjandi kerfi þar sem starfsmenn fá greitt samkvæmt afköstum. Við teljum okkur ná meiri hraða í verkinu og þar með veitum við viðskiptavinum okkar betri þjónustu. Einnig má segja að allir smiðirnir okkar séu litlir verkstjórar og láta okkur vita um leið og eitthvað er ekki í lagi. Þegar á allt er litið teljum við ávinninginn þó nokkurn. 

Verðskrá: Þú talar um að verðskráin sé nokkuð sanngjörn, í hverju er hún ekki sanngjörn? 

Arnar: Mér finnst stundum að mælingin nái ekki yfir vinnu þar sem mjög mikillar nákvæmni og vandvirkni er krafist. Ef hinsvegar um er að ræða mikið magn og einfalda vinnu þar sem hægt er að ná upp miklum hraða virkar mælingin vel. 

Oddbjörn mælingamaður ásamt Arnari og Birni á  mælingastað

Verðskrá: Það tæki sem verðskrárnefnd hefur til að nálgast fínvinnu og nákvæmni er tímamæling og síðan að beita ummáli flata. Til að fá upplýsingar um atriði sem mönnum finnst að virki ekki nægjanlega vel þurfum við ábendingar. Nú nýverið, samkvæmt ábendingum, var gerð breyting á útreikningi ummáls í loftaplötum og kerfismótum, þannig að taxtinn er alltaf í mótun. 

Verðskrá: Er það stefna fyrirtækisins að smiðir vinni í mælingu?

Arnar : Já að okkar mati eru smiðir að fá fyrir það sem þeir skila, þeir eru ekki að fá einhver ofurlaun fyrir einhverja vinnu sem kannski ekki alltaf er hægt að sjá. Mælingin er þessvegna góður kostur fyrir okkur, smiðirnir fá greitt fyrir það sem þeir gera. Það er enginn vilji hjá okkur að breyta þessu fyrirkomulagi. 

Á meðan smiðirnir og við erum ánægðir og mórallinn góður verður haldið áfram að vinna í mælingu.