Viðtal við formenn Trésmiðafélags Reykjavíkur og Meistarafélag húsasmiða þá Finnbjörn og Baldur Þór 26.01.06

 

Verðskrá: Hvernig metið þið stöðu mælingarinnar á þessum uppgangstímum? 

Finnbjörn og Baldur

Finnbjörn og Baldur. Við horfum uppá að það er veruleg vinnumagnsaukning á byggingamarkaðinum sem ekki skilar sér inní mælinguna. Við erum að skoða hvaða menn hafa verið og eru að vinna í mælingu. Þar sýnist okkur að sé lítil nýliðun á þeim mönnum sem eru að vinna í mælingu og af því höfum við verulegar áhyggjur. Ef fer fram sem horfir þá er hætta áað mælingin detti út með þeim mönnum sem vinna nú í mælingu hætta að vinna í mælingu. Því heyrum við í ýmsum aðvörunarbjöllum sem hringja í kringum okkur og þess vegna hafa félög okkar samþykkt að fara í allsherjar rannsókn og velta upp öllum steinum til að kanna alla fleti sem eru á þessu máli. 

Félögin eru jafnvel búin að finna mann sem hefur góða þekkingu á mælingunni og er jafnframt markaðsmaður. Það er þó ekki endanlega búið að ganga frá samningum um það. Við sjáum jafnframt merki um að stóru fyrirtækin sem hafa verið í viðskiptum hjá okkur eru að skipta um áhöfn og fá til liðs við sig erlenda starfsmenn og þeir að láta ekki mæla hjá sér. Við viljum taka upp viðræður við þessi fyriræki vegna þess að við þekkjum þá hagræðingu sem fæst ef unnið er í mælingu. Þau fyrirtæki sem láta mæla eru ekki að agnúast út í á hvaða tímakaupi smiðir eru í mælingu. Þau vita að því betur sem gengur í verkinu er ekki síður hagur fyrir fyrirtækið. Þessi fyrirtæki vita nákvæmlega hver kostnaður fyrirtækisins á hverja einingu er. 

Við viljum alveg eins taka upp viðræður um það hvort ekki sé hægt að víkka út mælinguna eða hvort eitthvað sé í mælingakerfinu sem veldur því að þessir hópar vilja ekki láta mæla. Og eins önnur fyrirtæki sem fylgjast með framleiðslukostnaði hjá sér, hvort við getum talað við þá aðila sem ekki láta mæla, að bæta framleiðsluna og minnkað kostnað í gegnum mælinguna. 

Verðskrá: Í einu af fyrri viðtölum Verðskrár kom fram að verkstjórn væri auðveldari í mælingavinnu. Eruð þið sammála því? 

Baldur: Það er ekki spurning, enda eru þeir sem nýta sér mælinguna sammála því. Um leið vil ég benda á að meistarafélagið reiknar út og gerir upp mælingar ef um það er beðið, hlutfall vegna lærlinga og allt sem þarf. Nú þegar nýta nokkur fyrirtæki sér þessa þjónustu. Þetta er þjónusta við notendur mælingarinnar sem við erum ekki að rukka fyrir. Þannig að enginn þarf að vera í vandræðum vegna útreikninga á launum vegna mælingar. 

Finnbjörn: Þessari þjónustu var bætt inní tölvukerfið okkar og kom til af því að minni fyrirtæki voru kannski ekki alveg klár á uppgjöri mælinganna. Ég tel einnig að mælingin gæti nýst vel sem utanumhald í tilboðum á ýmsum magnreikningum og aukaverkum s.s vegna m² og m³ þar sem búið er að aðlaga aðferð við útreikninga flatarmáls að flestum útboðsgögnum. 

Baldur: Þau fyrirtæki sem ganga vel og láta mæla gera sér alveg grein fyrir því og eru alls ekki að hætta að láta mæla. Hinsvegar spilar inní svona auralega séð ef hægt er að fá ódýran starfskraft sem virðist raunin nú og þá jafnvel smiði frá Englandi á útseldum launum frá vinnumiðlun á kr. 1600 kr á klst fyrir utan vsk. 

Baldur: Ég get bent á sem dæmi að fyrirtæki sem hefur haft það í sinni starfsmannastefnu að láta íslenska iðnaðarmenn í mælingu vinna verkið. Nú er það svo að þeir eiga í erfiðleikum að fá íslenska iðnaðarmenn til að manna öll störf til að standa við réttan afhendingartíma sem er mikið metnaðarmál hjá fyrirtækinu þannig að þar gæti orðið breyting á. 

Verðskrá: Mælingin er hugsuð sem verðlagning á vinnu smiða. Þannig að útseld mæling er hærri en mæling til smiða, hvernig er farið með það? 

Baldur: Meistarafélagið gefur sér ákveðnar forsendur en það er misjafnt hvernig félagsmenn taka á þessum launatengdu gjöldum. Það er að ekki óalgengt að launagjöld séu rúm 60% og meistaraálag 18 - 20% en þetta getur þó verið afar breytilegt. Síðan kemur ofan á þetta virðisaukaskattur. 

Finnbjörn: Ég hef litið á þetta sem akkilesarhæl í mælingunni og vildi gjarnan sjá að þar sem hlutur sveina í mælingunni er ljós þegar mælt hefur verið að eins væri farið með hinn hlutann þ.e. launagjöld og meistaraálag, þannig að viðskiptamaðurinn vissi nákvæmlega hvað mikið ætti að greiða í viðbót við sveinamælinguna. Þá er jafnvel hægt að hugsa sér að áður en verk hæfist gæti viðskiptamaðurinn fengið áætlun frá mælingastofunni og síðan réði hann meistara eða fengið tilboð með ákveðinni % tölu í launatengd gjöld og þóknun meistara. 

Baldur: Endurskoðenda- og mælingastofan eru ekki virðisaukaskyld og hvorki út né innskattar virðisauka. Sjálfsagt væri þá að láta mæla allt svo sem pípulögn og múrverk líka. Ef um er að ræða áætlanir þarf að huga að virðisauka og hugsanlegri samkeppni við verkfræðistofur og aðra tæknimenn.

Finnbjörn: Þetta er eitt af því sem við ætlum að láta skoða hver er líklegur kúnnahópur og hverjir nýttu sér þessa þjónustu okkar. Ef við erum að hugsa í alvöru um þetta held ég að við ættum að vera fyrri til og vera með virðisaukaskylda mælingastofu sem þjónaði þessum þáttum öllum. Stærsti kúnnahópurinn væri væntanlega þau fyrirtæki sem þegar eru í viðskiptum við okkur sem eru þá með virðisaukaskattsnúmer og ætti því ekki að breyta neinu um þeirra kostnað. 

Baldur og Finnbjörn: Ef af þessu yrði væri það gert með sameign meistara- og sveinafélaga. Það er líka dagljóst að við erum með reynslumikla mælingamenn og endurskoðendur með áratuga reynslu við að magntaka og reikna út verð á öllum mögulegum verkum. 

Verðskrá. Eruð þið sammálu um að það sé best fyrir smiðina og fyrirtækin sjálf að unnið sé í mælingu og hvetjið til þess? 

Finnbjörn og Baldur: Það er ekki spurning það er samdóma álit okkar. Reynslan hefur sýnt okkur það. Finnbjörn: Það er einn draugur sem hefur fylgt mælingunni og menn notað stundum gegn henni sem þekkja lítið til hennar. Það er að það sé kastað til höndum í mælingarvinnu. Reynsla okkar er hins vegar sú ef einstaklingur venur sig á að kasta til höndum skiptir engu máli hvort hann vinnur í mælingu eða tímavinnu. Það má segja þvert á móti að þeir sem vinna í mælingu vita ef þeir kasta til höndum og þurfa að taka upp eftir sig kemur það í bakið á þeim og kaupið lækkar, þannig að þeir vanda sig. 

Verðskrá: Baldur ef nýbyrjaður meistari kæmi til ykkar að spyrja um hvort hann ætti frekar að láta sína menn vinna í mælingu eða á tímalaunum. Hverju svarar þú honum? 

Baldur: Alveg hiklaust mælingu. Ég var að ræða við ungan meistara sem er nýbyrjaður að láta vinna í mælingu, hann er mjög ánægður með það. Það þarf smá tíma til að ná tökum á þessu einnig þarf að passa að verkstjórn og aðföng efnis séu í góðu lagi. Ef þetta fer saman er ekki nokkur spurning að mælingin er betri kostur.

Verðskrá: Telið þið að hægt sé að einfalda taxtann meir s.s. að fækka talningaratriðum?

Finnbjörn: Sjálfsagt má gera það og Verðskrá húsasmiða hefur verið vakandi yfir því. Þó er það þannig að mælingataxtinn er byggður á talningu og því sem gert er hverju sinni. Þannig að það verður alltaf að vera eitthvað bókhald um það. 

Baldur: Okkar mælingakerfi Verðskráin, hefur svo margt fram yfir önnur kerfi. Við erum með starfsmann hjá Verðskrá húsasmiða sem er starfandi við endurskoðun taxtans og verðleggur ný atriði sem koma upp. Þannig að verðskráin er í stöðugri skoðun. 

Finnbjörn: Svo má ekki gleyma því að sveinar eða meistarar eftir atvikum geta kært niðurstöðu mælingar til verðskrárnefndar, þar sem sitja bæði meistarar og sveinar. Þar er farið yfir og kemur nefndin með niðurstöður sem eru endanlegar. Síðast og ekki síst eins og Baldur nefndi erum við á tánum að verðleggja ný atriði sem koma upp hverju sinni og þar verður að passa að á hvorugan sé hallað þannig að fyrirtæki geti sem best nýtt sér nýjungar fyrir byggingaiðnaðinn með betri verkfærum. Þeir fái sem sé ávinninginn sem þetta skapar strax . Kerfið okkar, þar sem smiðir mæla upp og meistarar endurskoða mælingarnar, er í góðri sátt og nýtur trausts og það verður að varðveita. 

Verðskrá: Er mælingastofan í stakk búin til að taka að sér aukin verkefni ef til kæmi?

Finnbjörn: Ég held að hún sé það. Við erum með mælingakerfi, tölvukerfi sem er mjög gott og mælingamenn sem hafa haldið sér nokkuð á tánum til að þróast með tækninni. En ég vona að mælingarkerfið verði mun meira notað þannig að fjölga þurfi mælingamönnum. 

Mælingakerfið er afkastahvetjandi kerfi og þrír góðir samhæfðir mælingamenn afkasta miklu. Framleiðsla þeirra er kannski jafn mikil og margra ósamhæfðra erlendra smiða eða meiri. 

Kannski er það kunnáttuleysi sumra verktaka að þeir ráða fjöldann allan af erlendum starfsmönnum á t.d. 1000.- kr á tímann og halda að þeir séu að spara, en gætu verið með miklu færri smiði í mælingu á t.d. 2000.- kr á tímann sem afköstuðu meira, færri launaseðlar, minni verkstjórn og miklu minni umsýsla. Kostnaður verksins yrði þess vegna mun lægri.