Viðtal við Harald Ragnarsson einn eiganda Kambs ehf. þann 6.9.2006 sem var við vinnu við uppsetningar á steyptum einingum í Garðabæ.

Verðskrá: "Haraldur við vorum að velta því fyrir okkur af hverju þið látið ekki mæla?"

Haraldur Ragnarsson

 Haraldur: "það er einna fyrst að nefna að ég er einn af eigendum fyrirtækisins og vinn með smiðunum þannig að það myndi aldrei ganga upp gagnvart hinum. Ég þarf að skreppa frá fyrir fyrirtækið og þyrfti þá að ganga út úr flokknum. Önnur ástæða er sú að það koma tímabil sem ganga mjög vel, síðan koma tímabil sem gengur ekki neitt. Það getur verið vegna þess að einn flokkurinn hefur dregist eitthvað aftur úr s.s. þeir sem eru í plötum eða einhverju öðru sem tengist einingunum, eða mennirnir þurfa að fara í eitthvað annað tilfallandi verkefni." 

Verðskrá:" Eru smiðirnir sem eru að vinna með þér við uppsetningar á einingunum allir íslenskir?"

Haraldur: "Þeir eru allir íslenskir og flestir smiðir, sumir eru að vísu ekki komnir með sveinspróf, en þetta eru allt fínir smiðir." 

Verðskrá: "Hvað eru þið að byggja margar íbúðir hér?" 

Haraldur: "Alls eru það 335 íbúðir. "

Verðskrá: "Eru þær allar byggðar úr steyptum einingum?"

Haraldur: "Já sem eru klæddar að utan." 

Verðskrá: "Þið ættuð að prófa að láta mæla hér, það eru mælingahópar sem láta mæla þó menn séu að færa smiði eitthvað á milli verka, þeir eru með einn pott fyrir alla smiðina á staðnum."

Haraldur: "Ég get sagt þér annað, flestir þeir sem hafa farið í þessar einingar eins og Í.A.V. og Eyktin og fleiri hafa komið til mín í leit að upplýsingum um hvernig við gerum þetta. Ég hef þá sagt þeim hvernig við gerum þetta eftir bestu getu. Við erum búnir að reisa í um 3000 einingar, þannig að við hjá fyrirtækinu erum með mikla reynslu í þessu. Þegar við byrjuðum í Sóleyjarrima, vorum við fjórann og hálfan mánuð að reisa 80 íbúðir." 

Verðskrá: "Eru húsin einangrað að utan og klædd?"

Haraldur. "Já einingarnar sjálfar eru bara gegnheil steypa."

Verðskrá:" Í ljósi þess að mælingavinnan við steyptar einingar hefur heppnast vel, er þá ekki alveg upplagt að láta reyna á hana hér?"

Haraldur: "Við ræddum við Andrés hjá Loftorku og þetta var niðurstaða okkar út úr þeim viðræðum. Hann ráðlagði okkur að gera það ekki, "borgið þið bara smiðunum ykkar gott kaup þannig að þeir verði ánægðir", sagði hann. Við gerum það og erum vissir um að tímalaun okkar smiða eru hærri en gerist og gengur í tímavinnu hjá öðrum verktökum. "

Verðskrá:" Vinnið þið þetta þannig að þú sérð um alla verkstjórn á staðnum?"

Haraldur: " Nei ég er með undir minni stjórn svona 5 - 6 menn og við sjáum bara um uppsetningu eininganna, síðan eru 4 -5 menn við uppsetningu á plötunum." 

Verðskrá: "Fáið þið einingarnar afhentar í ákveðinni og réttri röð?"

Haraldur: "Nei það vill vera misbrestur á því, ég þarf kannski að hringja 5 - 6 sinnum uppeftir vegna eininganna. Svo er líka það að það þarf stundum að tala við verkfræðingana vegna þess að kraninn sem við erum með rétt nær stundum til að setja upp eininguna, en hún hangir þá á blá enda kranans. Það er nauðsynlegt að sjá það í tíma og kannski skipta einingunni í tvær og þá áður en hún fer í framreiðslu. Ef ekki er hugsað um þetta í tíma þarf að kalla til bílkrana og það er mjög dýrt .

Maður verður því að vita hvernig þetta allt saman rekst og undirbúa verkið mjög vel. " 

Verðskrá: "Hvað eru þið margir eigendur." 

Haraldur: "Við erum þrír bræður og við erum með starfsmenn sem hafa verið hjá okkur í mjög mörg ár og þeir væru ekki að vinna hjá okkur ef þeir væru óánægðir." 

Verðskrá: "Ég heyri á þér að það verður erfitt að fá ykkur til að vinna í mælingu."

Haraldur: "Ég hef tvisvar unnið í mælingu sem smiður, annað skiptið hafði ég mjög góð laun en í hitt skiptið hélt ég að ég væri á góðu kaupi, en það kom í ljós að kaupið var mjög lélegt, ég bara skildi þetta ekki. Það var vinur minn sem ég var að vinna fyrir þannig að ég vildi ekki kæra mælinguna, eða kvarta, þannig að ég kyngdi þessu bara. Þetta voru alveg sambærileg verk. "

Verðskrá: "Ég held að þetta hljóti að vera undantekning, mælingin er fyrir lögnu búin að sanna sig sem gott verkfæri til að mæla afköst." 

Haraldur: "Ég man eftir atviki þar sem við vorum að bjóða í uppslátt á einbýlishúsi. Mótbjóðandinn bauð ákveðið verð fyrir hverja stífu o.s.f.v. þannig að það var ekki nokkur leið að átta sig á heildarverði. Hvað kom verkkaupanum við hve margar stífur maðurinn setti, það átti bara að klára verkið og það átti að vera í lagi." 

Haraldur: "Loftorka hefur beðið okkur um að reisa eitt og eitt hús, þeir eru með eitt verð á einingu og þá gildir einu hvort steypta einingin er stór eða lítil. Ég veit ekki hvernig þið reiknið þetta, hvort þetta er reiknað í m² eða hver og ein eining." 

Verðskrá:" Við reiknum m² og ½ ummál eins og er oftast gert í uppmælingar taxtanum." 

Haraldur: "Það er ekkert meiri vinna við stóra einingu en litla, stærðin skiptir engu máli. Nema ef einingin er mjög óvenjuleg. "

Verðskrá: "Mælingataxtinn gengur út á það að mæla sem gert er, s.s. ef einingar eru festar með einni stífu eða tveimur og líka eru taldar steinboranir. Það er magntekið það sem gert er við einingarnar t.d. ef þarf að skera af einangrun, beygja teina og hvað annað sem gert er." 

Haraldur: "Við notum bara eina stífu í byrjun og síðan er rafsoðið á hornum þannig að einingarnar styðja sig hvor við aðra. Eru menn að stýfa bara til að stýfa?"

Verðskrá: "Nei það er ekki þannig. Ég reikna með að það sé ekki suðumaður í flokkunum þannig að það verður að sjóða saman hornin eftirá." 

Haraldur: "Við erum með suðumann sem er að læra smíði og hann sér um suðumálin fyrir okkur." 

Verðskrá: "Annars held ég að menn séu að ná betri og betri tökum á þessari vinnu og Verðskráin mun fylgjast með og endurmeta verðlagningu eftir þörfum. Ykkar fyrirtæki er svolítið öðruvísi samset, þú ert einn af eigendum og vinnur með smiðunum. Kannski þess vegna er minni áhugi hjá fyrirtækinu á að láta vinna í mælingu." 

Haraldur: "Einnig er það þessi þróunarvinna sem verður að inna af hendi það er ekki hægt að vinna hana í mælingu. En ég skil alveg þá sem láta vinna í mælingu verkstjórnin er öðruvísi og margt gott um mælinguna að segja þó að mér finnist hún ekki henta hér."

Að svo mæltu þakkaði Verðskráin fyrir ágætis viðtal og kvaddi.