Verðskrá hitti mælingamanninn Sigurjón Einarsson og endurskoðandann Ástþór Runólfsson á skrifstofu verðskrár föstudaginn 8. sept. s.l.

Verðskrá: Sigurjón,. "Hvað ertu búinn að vera viðloðandi mælingastarfið lengi." 

Sigurjón: "Ég er búinn að vera mælingamaður í um 20 ár. "

Sigurjón og Ástþór

Verðskrá: "Nú ert þú reyndasti starfandi mælingamaðurinn í dag."

Sigurjón: "Ég er það núna já, það er tiltölulega stutt síðan þeir hættu hinir sem voru búnir að vera hérna " frá fæðingu" (skaut Ástþór inní) mælingamennirnir sem hér hafa verið lengst. Síðan er það Halldór hérna á skrifstofunni sem hefur starfað sem mælingarmaður lengi, lengst af þó sem starfsmaður Verðskrár."

Verðskrá: " Ástþór hvað hefur þú starfað lengi sem endurskoðandi?"

Ástþór: "Ætli það séu ekki um 12 ár, eða síðan 1994. "

Verðskrá: "Hvað starfa margir mælingamenn á mælingastofunni?"

Sigurjón: "Við erum þrír sem störfum hér að jafnaði, svo höfum við fengið aðstoð þegar þess er þörf svona til að komast yfir toppana." 

Verðskrá: "En hjá endurskoðunarskrifstofunni." 

Ástþór: "Frá því að ég byrjaði höfum við verið tveir." 

Verðskrá: "Í hverju er mælingastarfið fólgið og hvað gera endurskoðendur ?"

Sigurjón: "Við komum á vinnustaði eftir að sveinar hafa pantað mælingu í samráði við meistarana, tökum upp þau atriði sem við á hverju sinni, nótum það hjá okkur eða tökum með okkur það sem okkur er látið í té hverju sinni eftir atvikum, og reiknum allt þetta út á skrifstofunni samkvæmt verðskrá húsasmiða." 

Ástþór: "Við fylgjumst með upptökunni og þegar útreikningarnir eru komnir til okkar er farið yfir þá og athugað hvor þeir séu í samræmi við það sem á að vera. Við eigum þá viðræður við mælingamennina um breytingar ef við sjáum ástæðu til að fara í annan taxta eða breyta einhverju. Að mínu viti hefur verið mjög gott samstarf milli mælingastofu og endurskoðenda: Ég held að þetta fyrirkomulag sem við erum með og grunnurinn á bak við það og þá sérstaklega tímaskýrsluskriftin sem sveinar verða að skila og meistarar eða verkstjórar að undirrita og að mælingamenn mæli upp fyrir sveina, og endurskoðendur séu á vegum meistara, þetta allt hefur gert það að verkum að mælingin lifir svona vel." 

Verðskrá: "Hverjir láta mæla og hvaða hag sjá menn í því að láta mæla?"

Sigurjón: "Það eru náttúrulega margir sem nota mælingastofuna, mest af því sem hefur verið mælt eru íbúðir og ýmis önnur verk sem eru mæld. Það eru einstaklingar og fyrirtæki sem nýtt hafa sér þjónustu mælingastofunnar. Töluvert er um það að við séum beðnir um að koma inn í verk þar sem er einhver óánægja er, til að leysa ágreining þegar allt er komið í hnút. Ef samkomulag er milli aðila að við mælum þau verk, reynum við að finna einhvern flöt á því. "

Verðskrá: "Hvaða hag hefur verkkaupinn eða meistarinn í því að láta mæla?"

Ástþór: "Þegar það er komið vel af stað hjá mönnum að láta mæla þá sjá menn strax að þeir eru bæði að fá góða verkstjórn út úr þessu, mennirnir verða töluvert sjálfstæðari og skipuleggja sig betur. Menn sjá líka að þeir eru að fá jöfnuð í greiðslum, þ.e. miðað við eininga eða fermetraverð burt séð frá mannskap, hvort sem er í veggjum eða mótum. Það er því lítill munur á vinnukostnaði milli fyrirtækja sem láta mæla á hverjum fermetra í veggjum eða mótum eða hverju öðru sem er, þau fyrirtæki þekkja þennan kostnað mjög vel."

Verðskrá: "Finnst þér að það sé mikil tímavinna meðfram mælingu." 

Ástþór: "Það er misjafnt, mjög misjafnt hjá sumum fyrirtækjum er nánast engin tímavinna meðfram mælingu, öðrum meir. Yfirleitt er einhver tímavinna meðfram mælingu. " 

Verðskrá: "Ástþór þú nefndir áðan fermetraverð. Í viðtali sem Verðskrá átti við Árna byggingastjóra hjá Eykt ekki fyrir löngu, kom fram að hann teldi einhvern ójöfnuð vera í mælingunni og nefndi sérstaklega fermetraverð gipsveggja, og taldi verðlagningu þeirra ekki þola samkeppni við verð undirverkataka.."

Ástþór: "Verð á gipsveggjum, það er ekki hægt að tala um að það sé ekki samkeppnisfært í mælingunni og er ekki sammála því á þeim forsendum að menn hafa komið til okkar og eru ekki sáttir við mælingu því þeir hafa ekki horft á grunninn á bak við þetta og hvað þeir eru í raun og veru að greiða fyrir fermetrinn. Ég hef tekið saman fjöldann allan af mælingum bæði í mótum, gipsveggjum og fleiru og borið saman. Fermetraverðið milli fyrirtækja eða meistara hangir á sama hundraðkallinum eða svo. Þannig get ekki séð annað að það sé gott samræmi milli mælingataxta." 

Sigurjón: "Verðskráin heldur utanum hvað menn eru að hafa í laun á einstökum verkum, hvort sem er um mót, innivinnu, vinnupalla eða annað er um að ræða. Þar sjáum við vel samræmið á milli verkþátta og að menn eru að hafa svipuð tímalaun í hvaða verki sem er." 

Verðskrá: " Þá eru smiðir að hafa álíka tímalaun í mælingu, sama hvort unnið er við mótavinnu, uppsetningu veggja, utanhúss klæðningu eða eitthvað annað."

Sigurjón: "Já nema það hefur verið ákveðinn vilji til þess að menn hefðu eilítið meira út úr mótunum og það er kannski sá taxti sem minnst hefur verið hróflað við í mörg undanfarin ár, en þó hafa menn nú verið að hnika til kerfismótum, plötum og öðru slíku og kerfismótataxtinn hækkað eilítið í samræmi við vilja manna að hafa hann aðeins hærri." 

Verðskrá: "Hvernig mæta mælingamenn og endurskoðendur nýjum aðferðum og efnum sem smiðir vinna úr á hverjum tíma." 

Sigurjón: "Við erum með sameiginlegan starfsmann, sveinar og meistarar, sem fer bara einfaldlega og skoðar aðstæður þegar koma upp ný efni eða nýjar aðferðir. Síðan er málefnið tekið fyrir hjá verðskrárnefnd sem annaðhvort verðleggur uppá nýtt eða notar einhver hliðstæð verð sem passa. Mælingamenn hafa heimild til að beita hliðstæðum ef ekki er þegar búið að verðleggja verkið. En fyrst og fremst er það starfsmaður verðskrár sem á að halda utanum að verðlagningar séu réttar og verðskránefnd þarf að vera vakandi yfir því líka. Verðskrárnefnd hefur auðvitað lokaorðið við verðlagninguna." 

Ástþór: "Þegar verðskrárnefnd hefur samþykkt nýjan taxta þá er strax byrjað að vinna eftir nýja taxtanum. Síðan er fylgst með taxtanum hvort allt virki ekki eins og til var ætlast áður en taxtinn er að fullu samþykktur. Taxtanum er breytt ef þess þarf eftir þessa skoðun og verðskrárnefnd verður líka að samþykkja þá breytingu, þannig að það er farið varlega við breytingar á taxtanum." 

Verðskrá: "Mælir mælingastofan alla smíðavinnu sem beðið er um að verði mæld." 

Sigurjón: Já það er eiginlega að færast yfir í það, það er nánast allt mælt. Við höfum gefið okkur út fyrir að við getum mælt allt sem lýtur að smíði. Svo þarf að liggja fyrir samkomulag milli sveina og meistara að unnið sé í mælingu.

Verðskrá: "Gildir það sama við endurskoðun?"

Ástþór: "Já þetta er þjónusta í kringum þetta og við verðum að sinna henni eins og annarri þjónustu." 

Verðskrá: "Ég man eftir því þegar ég heyrði söguna um það að þú hafir mælt uppsetningu á jólatré, er þetta jólasaga eð sönn saga?"

Sigurjón: "Jú við mælum allt og einhverju sinni mældum við uppsetningu á jólatré. Þar var tínt flest það til sem gert var svo sem trjáviður, saganir, staðsetning og allt sem við átti, þannig þetta var ekkert vandamál og menn held ég bara sáttir. "

Það hefur ýmislegt skemmtilegt verið mælt s.s. saga sundur vinnuskúr og fl."

Verðskrá: "Hvað með endurskoðun á svona mælingu?"

Ástþór: "Það var nú fyrir mína tíð, en þetta er yfirleitt ekki vandamál. "

Verðskrá: "Hvað finnst ykkur að helst sé ábótavant hjá smiðum varðandi það að koma upplýsingum á framfæri við mælingamenn á vinnustað." 

Sigurjón: Það er raunar mjög mismunandi eins og mennirnir eru margir. Sumir eru með þetta alveg uppá punkt og prik, eldsnöggir að gefa okkur upplýsingarnar. Við höfum verið að kenna mönnum betur hvernig er best fyrir okkur að fá gögnin. Svo erum við með 1 - 2 námskeið á vetri þar sem m.a. er farið í þessi mál. Námskeið verður haldið nú í haust sem verður auglýst síðar. Við höfum líka farið á staðina eða flokkarnir koma til okkar eftir atvikum þar sem farið er ofaní þessi mál, sérstaklega ef það eru nýir flokkar. " 

Verðskrá: "Er þá hægt að hringja í ykkur og fá ykkur til að koma á staðinn áður en mæling fer fram til að kenna mönnum hvernig er farið með s.s. talningarmál o s.f.v. "

Sigurjón: "Já og einnig erum við með blöð sem menn geta fyllt út, menn geta komið hingað og fengið þessi blöð. Við höfum oft farið á vinnustaði þar sem nýir flokkar eru að byrja og farið og spjallað um málið með þeim."

Ástþór: "Það er í raun og veru töluverð framför í þessu a.m.k frá því ég byrjaði. Það liggja betri upplýsingar um hvernig menn eiga að fara að þessu. Bæði með þessum námskeiðum og gátlistunum sem liggja frammi. "

Verðskrá: "Þið hvetjið menn til að nota gátlista".

Ástþór: "Já alveg eins og hægt er." 

Verðskrá: það má taka fram að gátlistana má sækja hér á netinu. Eins er hægt að útbúa gátlista fyrir einstaka mælingahópa í samræmi við þarfir þeirra.

Verðskrá: "Hvaða reynslu teljið þið að uppmælingarkerfið hafi sýnt." 

Ástþór: "Ef maður talar fyrir meistarana sem nota þetta á fullu, þá eru þeir á því að þetta sé besta launakerfi sem er í gangi. Það sé ekkert annað kerfi sem sé eins gott." 

Sigurjón: "Þegar ég var að vinna í þessu var veigamikill þáttur að launin voru hærri og það var styttri vinnutími. Menn gátu unnið skikkanlegan vinnutíma. Síðan er það bara staðreynd að eftir því sem menn vinna meira sjálfstætt þá eru menn ánægðari í vinnunni. Ef menn hafa frumkvæmið og geta skipulagt sig betur og verkið gangi betur, þá eru menn einfaldlega ánægðari í vinnunni."

Ástþór: "Það er líka atriði af skipulagningunni að það sé passlegur fjöldi smiða í hverjum mælingahópi þannig að henti verkefninu."

Sigurjón: "Já það verður að passa það vel að mannskapur sé við hæfi í hverju verki þannig að nýting mannaflans sé sem best."

Verðskrá: "Að síðustu er eitthvað sem þið viljið segja að lokum?"

Sigurjón: "Það er að sjá alveg nýja stöðu í sambandi við þennan gríðarlega innflutning á erlendu vinnuafli sem er að flæða yfir vinnumarkaðinn núna. Það er kannski 

byrjað á því að taka íslensku smiðina og færa þá yfir í byggingastjóra og sprengja þannig upp mælingaflokkana. Ég held að það sé búið að flytja inn um 5000 manns frá áramótum, væntanlega þó ekki alla í byggingaiðnaðinn, en þó er þar mikill fjöldi. Við sjáum auðvitað núna vandamálin sem eru að koma fram vegna breytingu á vinnutíma. Það gengur auðvitað ekki upp í mælingu að hafa saman í mælingaflokk Íslendinga sem vinna 8 klst. á dag og útlendinga sem vinna 10 - 12 klst. á dag. Þannig að nú eru fyrirtækin farin að reyna að semja við smiði sem voru í mælingu um eitthvað meðalkaup í mælingunni og vera með nokkra erlenda menn með sér. Þannig að við erum að sjá alveg nýjan veruleika á markaðnum." 

Ástþór: "Þó er það til að það eru útlendingar inní mælingarhópum."

Sigurjón: "Við erum að skoða það núna að hafa eitt mælinganámskeið á þýsku um það hvernig á að telja fram og hvernig á að halda utanum þetta. "

Verðskrá: "Þannig að mælingamenn verði sendir á þýskunámkseið." 

Sigurjón: "Þetta er svo sem ekkert auðvelt mál sem við stöndum frammi fyrir og ekki nein lausn fundin, en það er verið að hugsa um þessa hluti núna. "

Verðskrá: "Þetta segir manni kannski að mælingamenn eru vinsælir sem flokkstjórar vegna þess hve þeir eru skipulagðir og agaðir." 

Sigurjón: "Já það er þetta sem er að gerast núna, mælingahópum sundrað og mennirnir sem mesta frumkvæðið hafa settir yfir hóp af erlendum starfsmönnum sem vinna í 10 - 12 tíma alla daga vikunnar, fara svo heim eftir þrjá mánuði og nýir koma í staðinn. Innlendu smiðirnir vilja ekki þennan vinnutíma þannig að þetta passar ekki saman. Það má segja að þegar kominn er ákveðinn fjöldi útlendinga á vinnustaðinn þá hliðrast allt til. Vinnutími og vinnutilhögun færist aftur um tuttugu til þrjátíu ár. "

Ástþór: "Það er á einum vinnustað þar sem ég þekki til og mér þykir athyglivert, þar er það verkstjórinn staðnum sem gefur allt upp og það gengur mjög vel. Ég sé fyrir mér að verkstjórar gæfu upp þau atriði sem þarf fyrir hópinn, þá gildir einu hverrar þjóðar smiðirnir eru. "